Icelandair: Breytingar í framkvæmdastjórn Icelandair


2 oktober, 12:45

Breytingar hafa verð gerðar á skipulagi Icelandair þar sem tvö lykil ábyrgðarsvið sem áður heyrðu undir framkvæmdastjóra rekstrar heyra nú beint undir forstjóra og staða framkvæmdastjóra rekstrar hefur verið lögð niður. Við breytinguna taka stjórnendur viðkomandi sviða sæti í framkvæmdastjórn Icelandair. Þeir eru: Leifur Guðmundsson tæknistjóri Icelandair sem verður framkvæmdastjóri tækni- og viðhaldssviðs (SVP Technical Operations) og Arnar Már Magnússon sem hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair (SVP Flight Operations). 

Leifur Guðmundsson býr yfir hátt í 30 ára reynslu af flugrekstri, bæði hér á landi og erlendis. Hann hefur starfað sem tæknistjóri Icelandair (Vice President, Technical and Maintenance) frá árinu 2021 eftir að hafa stýrt tækni- og viðhaldsmálum hjá Loftleiðum, leiguflugsarmi Icelandair, og hjá Air Iceland Connect áður en starfsemi innanlandsflugs var sameinuð alþjóðaflugstarfseminni. Á árunum 2014-2017 starfaði Leifur sem flotastjóri hjá Avion Express í Litháen og á árunum 2009-2014 sem forstöðumaður á rekstrarsviði hjá SmartLynx Airlines í Lettlandi. Hann hóf feril sinn í flugrekstri árið 1998 sem flugvirki hjá Flugfélagi Íslands þar sem hann starfaði í rúmlega 10 ár í ýmsum störfum á tæknisviði. 

Arnar Már Magnússon hefur áralanga reynslu af rekstri flugfélaga. Hann var einn af stofnendum Play árið 2019 þar sem hann gegndi stöðu forstjóra á fyrstu árum félagsins en var síðan framkvæmdastjóri rekstrar á árunum 2021-2024 og starfaði einnig um tíma sem aðstoðarforstjóri, ásamt því að vera þjálfunarflugstjóri hjá félaginu frá árinu 2019. Arnar Már starfaði áður hjá WOW air eða á árunum 2013-2019 þar sem hann gegndi meðal annars stöðu framkvæmdastjóra flugrekstrar, flugrekstrarstjóra, yfirflugstjóra og þjálfunarflugstjóra. Fyrir þann tíma starfaði hann sem flugmaður og flugstjóri hjá Ryanair. Arnar Már hefur störf nú þegar. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Það var ánægjulegt að sjá hversu margir hæfir einstaklingar höfðu áhuga á starfinu, bæði innlendir og erlendir sem sýnir hvað Icelandair er eftirsóttur vinnustaður. Rekstrarsvið Icelandair er mjög umfangsmikið og eru starfsmenn þess um þrjú þúsund og spanna fjölbreytt störf – um borð flugvélum, í viðhaldi flugvéla, á flugvöllum og skrifstofu. Til þess að styðja við markmið okkar um að auka skilvirkni og styrkja samkeppnishæfni félagsins í öllum kostnaðarliðum, höfum við ákveðið að færa lykilhlutverk í flugrekstrinum nær framkvæmdastjórn félagsins. Leifur hefur náð góðum árangri með sínu teymi í skipulagi viðhalds á undanförnum misserum sem hefur verið lykilþáttur í bættri skilvirkni í flugrekstrinum. Þá erum við mjög ánægð með að fá Arnar Má til liðs við Icelandair sem kemur með ferska sýn inn í félagið. Hann hefur mikla reynslu á sviði flugrekstrar, ekki síst  þar sem áherslan hefur verið á strangt kostnaðaraðhald sem rímar vel við okkar áherslur í rekstrinum. Ég hlakka til að vinna með Arnari Má og Leifi að því að byggja ofan á þann góða árangur sem við höfum náð að undanförnu – bættri stundvísi og aukinni skilvirkni sem skilar sér ekki eingöngu í  lækkun einingakostnaðar heldur einnig í betri upplifun farþega.“  

Nánari upplýsingar
Fjárfestar: Íris Hulda Þórisdóttir, yfirmaður fjárfestatengsla. Netfang: iris@icelandair.is
Fjölmiðlar: Ásdís Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og sjálfbærni. Netfang: asdis@icelandair.is

Viðhengi
Icelandair: Breytingar í framkvæmdastjórn Icelandair

Läs mer på MFN



Marknadsöversikt

1 DAG %

Senast

1 mån